Vesturheimur kallar

Ögmundur og Guðrún
 Þetta alvörugefna fólk á myndinni hét Ögmundur Ögmundsson og Guðrún Ingimundardóttir. Lengst af ævi sinni bjuggu þau á Öxnalæk í Ölfusi. Þau voru bæði ættuð úr Grafningi, hann frá Bíldsfelli en hún  frá Króki. Þessi hjón voru langafi og langamma. Síðustu árin bjuggu þau hjá Guðrúnu ömmu í Sogni. Ögmundur varð 85 ára og blindur síðustu æviárin.
Jón, Jón og Jón í Vesturheimi
Á hinni myndinni eru 3 kynslóðir af Jónum. Elstur er Jón Ögmundsson, bróðir Ögmundar. Hann tók við föðurarfleifð þeirra bræðra að Bíldsfelli. Hann giftist systur Guðrúnar sem hét Þjóðbjörg og eignuðust þau 10 börn en aðeins 7 lifðu.  Þjóðbjörg lést 47 ára árið 1886, eftir það undi Jón ekki á Íslandi og árið 1887 flutti hann sig til Kanada ásamt börnum sínum.  Hann bjó lengst af í Foam Lake í Saskatchewan. Hann tók upp eftirnafnið Bildfell í Kanada og frá honum er kominn stór ættbogi.  Með honum á myndinni er sonur hans Jón J. Bildfell og sonur hans Jón Aðalsteinn Bildfell.  Myndin er árituð til kæra frænda og hefur geymst í fórum fjölskyldunnar alla tíð.
 Þegar við systur ákváðum að láta verða af því að halda til Vesturheims nú í sumar fundum við þessar gömlu myndir og alnetið sagði okkur að í Foam Lake væri Bildfells cemetery. Þá var kominn áfangastaður sem skyldugt væri að heimsækja.    https://www.findagrave.com/cemetery/2225114/bildfell-cemetery

Hér er tengill í minningargrein um Jón Ögmundsson ef einhver hefur áhuga.
 http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=2194807
Því í fræðslu- og menningarferðum erlendis er nauðsynlegt að hafa markmið og áætlun.

Við systurnar yfirgefum Ísland þann 1. júní n.k. og ætlum að skoða náttúru og menningu Kanada næstu 4 vikurnar.  Ætlunin er að setja hér inn punkta og kannski nokkrar myndir frá ferð okkar. Aðallega vegna þess að við erum orðnar miðaldra og gætum gleymt staðreyndum þegar frá líður en líka gæti einhver haft áhuga á að fylgjast með upplifunum okkar í ferðinni.

Ummæli