Áfram í vestur

Yfirgáfum Herra Chang og hans hjú og drifum okkur út á þjóðveginn. Stoppuðum í næsta bæ, Williams Lake og versluðum. Núna erum við að ferðast um nokkuð þurra hásléttu, milli Klettafjallanna og fjallgarðsins meðfram ströndinni, sem heitir Costal Range eða Strandarfjöll. Sléttan er í 1000 til 1500 m hæð og vaxin blönduðum barr- og laufskógi einkar fallegt með blómstrandi vorblómin í vegköntunum. En hér skrælnar víst allt þegar líða tekur á sumarið, regnskýin frá hafinu missa rigninguna vestan við fjöllin. Þetta svæði er þekkt sem það afskekktasta í Kanada. Hér er helst búskapur með holdakýr sem ganga sjálfala á afréttum með kálfana sína. Á haustin er svo öllu smalað og flestir kálfarnir seldir á fóðurstöðvar í Alberta eða USA.
Hluti hópsins var búinn að panta sér útsýnisferð með vatnaflugvél á Nimpo vatni en við hin borðuðum nestið í góðri aðstöðu og fengum kaffi í boði hússins. Útsýnið yfir vatnið var einkar fallegt og svo skilaði flugmaðurinn félögum okkar glöðum og reifum. Héldum svo áfram för okkar að Anahim vatni. Þar gistum við á stað sem heitir Eagle's Nest. Við fengum kofa í skóginum til að gista í. Þeir voru með kamar og kalt vatn í krana en allt mjög snyrtilegt.  Svo kveiktum við upp í kamínunni og hlýjuðum okkur. Eina sem angraði mannskapinn voru moskítóflugur sem alla ætluðu að éta.  Ofnæmislyf og kanadískt eitursprey duga mjög skammt sem vörn gegn þessum illfyglum.


Ummæli