Haldið heim

Kings Corner Guest House


Við fundum út að auðveldast væri að fara með lestinni á flugvöllinn og geyma töskurnar þar. Flugið var kl. sjö um kvöldið svo deginum var eytt í smá dól um borgina,  fórum niður að sjó og fylgdumst með umferðinni um höfnina. Þar er heilmikil sjóflugvélaumferð, bæði styttri útsýnisflug og áætlunarflug. Helst þá á ýmsa staði á Vancouver eyju. 

Meðfram sjónum er líka gangvegur þar sem sett hafa verið upp söguskilti sem segja frá ýmsum atburðum í sögu svæðisins.  Það er svo ótrúlega stutt síðan uppbygging hófst á þessu svæði. Vancouver varð ekki til sem borg fyrr en með lagningu járnbrautarinnar uppúr 1880. Eftir það var farið að kanna landið norður með ströndinni og landnemar að flytja á svæðið. Það var skrítið að lesa um erfið verkefni landnemanna og horfa svo upp eftir himinháum glerturnum sem nú standa á svæðinu.

Héldum tímanlega á flugvöllinn,  komumst heilar heim og svo verður fljótlega allt eins og við höfum aldrei farið neitt.

Þetta er búin að vera mikil reisa, vorum burtu í 4 vikur, ferðuðumst hátt í 7000 km, sáum fjölbreytt náttúrufar og mannlíf. Kanadamenn eru upp til hópa mjög elskulegt fólk og allir tilbúnir að aðstoða ferðamenn. Innviðirnir eru til fyrirmyndar, alls staðar vel merkt og gott aðgengi að upplýsingum. Stoppuðum ekki á svo litlum áfangastað að ekki væri a.m.k. snyrtilegur kamar ef ekki vatnssalerni. 

En Kanada er stórt og ekkert áhlaupaverk að skoða allt landið. Við skoðuðum svæðið frá 
Winnipeg, sem er næst því að vera í miðju landi, vestur að Kyrrahafsströnd að þessu sinni, eigum því austurpartinn alveg eftir. Nú er bara að byrja að safna fyrir næstu ferð.

Ummæli