Over the hill - Yfir hólinn

Kunnum svo vel við okkur að það var bara dólað í morgun. Sumir leigðu kanó og reru út á vatnið en aðrir létu sér nægja gönguferð á ströndinni.  Í dag var farið einu leiðina sem liggur niður af hásléttunni niður í Bella Coola dalinn og út að ströndinni. Bærinn Bella Coola sem stendur niðri við hafið var lengi án vegasambands, fylkisstjórnin ákvað að hætta vegagerð við Anahim vatn. En heimamenn ákváðu að leggja sinn veg sjálfir og lögðu 43 km veg með lækkun um 1800 m, sem gerir það að verkum að hann er á köflum ansi brattur. Þeir kalla veginn Freedom road eða bara The Hill. Það var ansi bratt niður með köflum en þetta er ágætis malarvegur sem þætti jafnvel góður á Vestfjörðum.  Stoppuðum við veginn þegar við vorum komin langleiðina niður, fengum okkur göngu í skóginum sem hér niðri er orðinn tempraður regnskógur. Gengum milli trjánna og nutum skógarins. Síðan var tími á hádegismat og svo var haldið áfram niður Bella Coola dalinn út að sjó þar sem samnefndur bær kúrir milli hárra fjalla. Þar búa ríflega 2000 manns og lifa flestir á ferðamönnum þó sumir stundi auðsjáanlega einhvern smábúskap með búsmala og grænmetisræktun. Svo eru flestir með bát í garðinum en fiskveiðar eru víst hættar að vera atvinnugrein fyrir nokkru síðan hér um slóðir. Fyrstu evrópsku landnemarnir hér voru Norðmenn,  þeim hefur litist vel á sig hér í landslagi sem minnir mikið á vesturströnd Noregs. Enn eru hér staðarheiti uppá norsku o.fl. sem minnir á þá. Annars er  hér nokkuð sterkt samfélag frumbyggja sem setja sitt mark á samfélagið.


Ummæli