Skoðunarferð um Jasper


Haldið úr hlaði um hálf níu, þeir sem misstu af birninum kvöldið áður voru dálítið spældir. En allt jafnaði þetta sig þegar við héldum af stað í skoðunarferð.  Fyrsta stopp var við Medicine vatnið. Þar má enn sjá ummerki um mikinn skógareld umhverfis vatnið árið 2015. Furuskógurinn er alveg dauður en skógarbotninn er farinn að grænka af alls konar öðrum gróðri.
 Það er samt annað sem hrjáir furuna meira en það er padda sem heitir furubjalla. Hún borar sig inn í stofninn svo tréð drepst áður en langt um líður.  Það eru bara nokkur ár síðan bjallan fór að lifa af svona hátt uppi en undanfarnir vetur hafa ekki verið nógu kaldir til að drepa hana. Svo bætist við að vegna öflugra eldvarna er skógurinn mjög þéttur. Því eru flestar hlíðar kringum Jasper rauðar af dauðri eða deyjandi furu.
 Við vatnið verpir skallaörn og hreiðrið er gríðar stór laupur efst í hæstu furunni við vatnið. Þeir sem voru með kíki horfðu mikið en sáu lítið, fullorðnu fuglarnir voru a.m.k. ekki á svæðinu.
Héldum áfram að Maligne vatninu. Það er gríðarlega langt og mjótt vatn umlukið háum fjöllum.  Þarna eru alls konar gönguleiðir í boði umhverfis vatnið allt eftir hversu gönguæst fólk er.
Maligne vatnið fannst ekki af hvítum mönnum fyrr en 1907 en það var kona að nafni Marie Schäfer sem fyrst kannaði svæðið, mældi og teiknaði upp. Marie var eina konan sem vann við landkönnun fyrir kanadísku landstjórnina á þessum tíma. 
Úr Maligne vatninu rennur Maligne áin yfir í Medicine vatnið, úr því rennur áin eina 15 km en hverfur svo í kalsteinslög og vatnið kemur ekki aftur upp á yfirborðið fyrir en í Maligne gilinu langt fyrir neðan. Gilið er um 50 metra djúpt en oft ekki nema 3 til 5 metrar á breidd, við gengum niður með því eina 2 km og nutum náttúrunnar.
Áttum stund í Jasper seinnipartinn og borðuðum þar kvöldmat. Um kvöldið fórum við í heitan pott í nágrenni Pocahontas. Þar voru 2 heitar sundlaugar og kaldir pottar. Og fjöldinn allur af fólki, bæði ferðafólk og heimamenn. Það var ósköp notalegt að láta líða úr sér strengina í heita vatninu. 



Ummæli