Tofino - strandbær á sterum


Á eyjunum kringum Tofino býr þónokkur fjöldi af svartbjörnum. Núna eru birnurnar með litla húna og nærast helst á alls konar sjávarfangi á ströndinni.  Því er kjörið að skoða dýrin frá sjó af bát. Svo við vorum mætt galvösk í slíka ferð,   vorum dubbuð upp í rauða flotgalla og spænt með okkur á gúmmíbát milli eyja utan við Tofino.
Við erum dálítið góð í þessu með birnina. Komum auga á birni á mörgum eyjum. Báturinn lónaði fyrir utan svo auðvelt var að fylgjast með fullorðnu dýrunum velta við stærðar steinum og éta skeldýr og krabba. Fullorðnu birnirnir létu sér fátt um finnast þó rauðklæddir túristar létu myndavélarnar ganga en húnarnir voru fljótir að láta sig hverfa í trjáþykknið fyrir ofan bakkann.
Fengum smá hádegispásu en síðan var farið í bátsferð í litla eyju þar sem við fengum okkur göngu í skóginum.  Þarna komu innfæddir í veg fyrir skógarhögg með heilmikilli baráttu fyrir nokkrum árum.  Síðan hafa þeir byggt upp göngustíg um eyjuna og hún er orðin vinsæll áfangastaður fólks sem langar til að eiga góða stund í skóginum. 
Þegar við komum aftur í land fundum við kaffihús og litum síðan í nokkrar búðir.  Tofino er staðurinn til að stunda vatnasport og náttúruskoðun. Og í hverju húsi er boðið uppá einhverja þjónustu fyrir áhugasama.
Grilluðum um kvöldið,  það var ansi kalt að sitja úti,  minnti helst á íslenska grillveislu þegar fólk var búið að klæða sig  í öll hlýju fötin sín til að borða úti á palli. En þetta var samt hið ánægjulegasta kvöld.




Ummæli