Túristar í Bella Coola

Nú var tekið á því í skipulagðri afþreyingu.  Um morguninn fórum við upp dalinn að Tweedsmuir lodge. Þar áttum við pantað í bátsferð á ánni til náttúruskoðunar. Þetta er svona rafting fyrir eldri borgara.  Maður situr á stól í stórum gúmmíbát sem flýtur niður lygna á og fær fræðslu um náttúru- og dýralíf. Þarna dóluðum við í eina tvo tíma, mjög fróðlegt og skemmtilegt. Þegar starfsfólkið komst að því að við erum Íslendingar fengum við að vita að þau eru  með 6 íslenska hesta til afnota fyrir gestina.  Þau gátu ekki hrósað þeim nógsamlega,  hversu vinnufúsir og taugasterkir þeir eru.  Sögðu líka að sífellt fleiri í dalnum væru að fá sér íslenska hesta eftir að hafa kynnst þeim hjá þeim.  Við fórum að sjálfsögðu og heilsuðum uppá landa okkar. Hrossin eru 6, þar af 4 fædd á Íslandi.  Þau litu vel út, auðsjáanlega í góðri þjálfun og í mátulegum holdum. Athyglisverðast var að þau voru ójárnuð. Aðal hestakonan sagði að það hefði verið svo mikið vesen að fá járningu að þau hefðu hætt því og það ekki komið að sök. Útreiðar hér helst stundaðar á mjúkum skógarstígum og kalksteinsmulningi og hrossin öll með góða hófa.
Eftir góðan viðurgjörning héldum við aftur til Bella Coola.  Þar áttum við pantað í fræðsluferð um menningu innfæddra á svæðinu. Innfæddir hér á svæðinu eru af Nuxalk ættbálki. Þeir hafa aldrei skrifað formlega undir neitt við Kanadastjórn og því haldið nokkuð sterku menningarlegu sjálfstæði. Enda hér við enda vegarins langt frá valdstjórninni. Samt var nú miklu af ræktanlegu landi úthlutað til landnema af evrópskum uppruna.
Við fórum með Clyde indíána upp með Thorsen ánni á stað sem gegnum tíðina hefur verið þeirra helgasti staður. Þar er að finna hvítar kalksteinsklappir og á þeim æfafornar myndir ristar í bergið. Þetta var staður helgiathafna og þar sem fólk sagði sögur þjóðar sinnar með myndum.  Svæðið hefur ekki verið kannað nema að litlu leyti en þó má sjá þarna mikið af alls kyns ummerkjum um fólk.  Clyde sagði okkur sögur og dró fingri yfir bergið og þá birtust alls kyns verur á steininum. Hann spilaði líka á trommuna sína og söng. Mjög eftirminnileg stund þarna í skóginum.




Ummæli