Vancouver eyja


Morguninn var fallegur í Port Hardy þegar við vorum mætt með töskurnar kl. hálf átta.  Ókum í hálftíma á alvöru morguverðarstað. Draumur bretanna um alvöru eldaðan morgunmat rættist. Þarna var hægt að fá egg, beikon, pylsur og allt hitt í afbrigðum eftir sérvisku hvers og eins.  Þetta var alveg ágætt, dugði ágætlega fram eftir degi. 
Áfram var haldið suður eftir eyjunni, þar til um miðbikið að haldið var í vestur í átt að Kyrrahafinu. Vancouver eyja er um 30.000 ferkílómetrar. Eyjan er mun lengri en hún er á breidd.  Um miðbikið og meðfram vesturströndinni eru fjallgarðar, þar sem hæstu tindar eru hátt í 2000 m.
Hraðbrautin liggur niður austurströndina til stærstu borgarinnar Viktoria. Við beygðum hins vegar til vesturs í átt til strandar. Á leiðinni stoppuðum við um stund þar sem varveittur hefur verið upprunalegur risafurulundur með ævafornum trjám, kallað Cathedral grove. Það er mögnuð upplifun að ganga milli þessara risa. Þó þarna hafi verið fjöldi fólks þá nær þögn skógarins að dempa öll hljóð og róa fólk niður.
Héldum áfram yfir fjöllin og enduðum í Ucluelet,  bæ á strönd Kyrrahafsins sem var næturstaður okkar að þessu sinni. Fengum okkur kvöldgöngu út að vitanum í Ucluelet.  Kyrrahafið er ekkert svo frábrugðið öðrum höfum.




Ummæli