Viktoria höfuðborg Bresku Cólumbíu




Rifum okkur upp snemma eins og venjulega og héldum af stað áleiðis til Viktoria, stærstu borgarinnar á eyjunni og höfuðborgar fylkisins. Við stoppuðum á matarmarkaði til að kaupa hádegismat.  Þarna svífur gamall hippa andi yfir, hægt að fá alls konar batik klæðnað og lífrænt gos í glerflöskum. Allir þekkja þennan stað því hann er með torfþaki og þar búa 3 geitur. Svo er búið að útbúa alls kyns varning með geitum sem er til sölu. Snilldar markaðssetning.

Í Viktoria fundum við höfnina niðri við sjóinn. Þar er flugstöð því haldið er uppi flugsamgöngum með vatnafluvélum. Þarna er líka boðið uppá hvalaskoðun á rib-bátum, þ.e. gúmmíbát með utanborðsmótor, sem geysast langar leiðir til að sjá hvali í fjarska.  Þetta var skemmtun innifalin í ferðinni svo ekki fór ég skorast undan. Enn á ný voru allir dubbaðir upp í rauða flotgalla og settir um borð í bátinn.  Höfnin í Viktoria er mjög þröng og ýmis farartæki á ferð fram og aftur, alls konar bátar stórir og smáir og svo  flugvélar að taka á loft og lenda.  En þegar við vorum komin út úr höfninni var gefið í og tætt yfir til eyja sem tilheyra Bandaríkjunum. Þar sáum við hóp af háhyrningum synda meðfram ströndinni.  Þeir voru það langt í burtu að maður svona rétt sá að þeir voru þarna. Þeir sem voru með stærstu aðdráttarlinsur náðu þokkalegum myndum. Á bakaleiðinni var stoppað við kletttasker sem er viðverustaður sæljóna. Þarna hanga karldýrin saman og sóla sig á daginn og berjast um hver er á merkilegustu sillunni. Allt með hávaða og töffarastælum. Fengum að fylgjast með þeim um stund en síðan var spænt aftur til lands. Ég verð að segja það að ég er ekki hrifin af svona náttúruskoðun. Mér finnst náttúruskoðun vera til að njóta í rólegheitunum þess sem á vegi manns verður, ekki að ferðast með einhvern lista og strika svo yfir það sem búið er að mynda.

Þegar í land var komið fengum við frjálsan tíma til að rölta um miðborg Viktoria.  Meðfram höfninni og í kringum þinghúsið eru alveg stórkostlega fallegir garðar og nú er einmitt tíminn sem allt er gróskumikið og í blóma.  Þetta svæði er víst líka mjög vel fallið til ræktunar,  loftslagið hlýtt og mátulega rakt og frjósamur jarðvegur. Settumst á bekk í rósaangan og nutum stundarinnar. Fórum svo á veitingastað og allur hópurinn borðaði saman í síðasta skiptið því seinnipartinn á morgun skiljast leiðir.






Ummæli