Latir túristar í Vancouver


Vöknuðum að sjálfsögðu fyrir allar aldir en það var ósköp gott að þurfa ekki að rjúka strax á lappir. Könnuðum almenningssamgöngur til miðbæjarins og vorum komnar af stað um níu leitið. Tókum strætó 25 á King Edward lestarstöðina og þaðan Canada Line í miðbæinn.  Neðanjarðarlest í Vancouver er bara 2 línur en það eru strætisvagnar út um allt. 

Í Vancouver býr einna flest fólk af asískum uppruna af kanadískum borgum. Þar er stærsta kínahverfið í Kanada og við héldum þangað og skoðuðum kínverskan garð í stórborginni. Það var notalegt að koma í kyrlátt umhverfi garðsins. Um það bil sem borgin var að byggjast upp tók kínverska samfélagið eina blokk í miðju hverfinu til að gera garðinn í hefðbundnum stíl.
Vesturheimskar borgir eru flestar skipulagðar með því sniði að út frá einhverjum punkti eru göturnar númeraðar, avenue þvers og street langs.  Út frá miðpunktinum eru göturnar merktar E fyrir east (austur), N fyrir norður o.sv.frv. Þegar maður er farinn að skilja þetta er auðvelt að staðsetja sig og rata.

Eftir að hafa brugðið okkur til Kína tókum við bát yfir til Granville eyju sem er skemmtilegur staður með matarmarkaði, alskynns handverksbúðum og fleira áhugaverðu.  Vorum þarna langa hríð en tókum svo strætó í miðbæinn aftur. Þar litum við aðeins í búðir en þegar við vorum búnar að enda þrisvar í Topshop við að finna leiðina út úr Hudson Bay vöruhúsinu var ég komin að barmi taugaáfalls.  Braust út um næstu dyr og komst við illan leik út á götu aftur. Heimtaði að fara til baka í rólegheitin á King's Corner gistiheimilinu og þar áttum við góða kvöldstund.



Ummæli