Vancouver - ferðahópurinn kvaddur



Tókum ferjuna yfir til Vancouver klukkan níu frá ferjuhöfn norðan við Viktoria. Þetta er mjög fjölfarin leið svo allt gengur hratt og fumlaust fyrir sig. Ferðin tók einn og hálfan tíma og siglt er milli hólma og eyja yfir sundið til fastalandsins. Þarna er auðsjáanlega mjög aðdjúpt því þessi stóra ferja sigldi um mjóa ála milli eyjanna og á stundum var eins og maður gæti snert trén í landi. Í Richmond, sunnan við Vancouver kvöddu Malcholm og Susan, bresku hjónin í hópnum okkar. Þau voru nokkra daga í Vancouver áður en ferðin hófst en núna ætla þau suður til USA. Við hin fórum í Stanley garðinn í Vancouver og borðuðum saman pylsur og ís. Stanley garðurinn er eitt helsta aðdráttarafl fyrir ferðamenn í Vancouver. Hann er á nesi í miðri borginni, ótrúlega víðáttumikill. Skógurinn hefur að stórum hluta fengið að halda sér en byggt hefur verið upp stígakerfi til gönguferða og hjólreiða.
Fljótlega varð ljóst að ferðin var á enda og fólk farið að hugsa um aðra hluti, svo Carl fann stað til að stoppa í miðbænum, töskurnar voru teknar úr kerrunni í síðasta sinn. Við knúsuðumst á gangstéttinni og svo fór hver að leita að sínum samastað. Þetta var hið vænsta samferðafólk, allir vanir að ferðast í hóp og enginn með óþarfa kröfugerð og vesen.
Ég var búin að bóka ódýra heimagistingu þónokkuð frá miðbænum.  Við nenntum ekki að finna út úr almenningssamgöngum strax svo við fengum okkur leigara á King's Corner Guesthouse. Sem eru 2 herbergi í kjallaranum hjá Anne. Þarna var allt hreint og fínt í mjög elskulegu umhverfi. Í hinu herberginu var þýskt par sem var búið að vera á ferðalagi í USA.
Við fundum matvöruverslun í hverfinu og keyptum inn morgunmat og snarl í kvöldmat.  Slöppuðum svo af lausar við álagið sem fylgir skipulagðri hópferð.

Í Stanley garði var upphaflega grafreitur innfæddra


Ummæli